Verstöðvar

Verstöðvar á Íslandi á 18. og 19. öld skiptust gjarnan í fjóra flokka. Fyrst ber að nefna heimverin, en þá átti hver sveitabær sína heimvör sem róið var frá hverju sinni. Ef margir sveitabæir lágu saman og fjölbýlt var sameinuðust menn um heimvör. Útverin svokölluðu, voru andstæðan við heimverin, en þá yfirgáfu menn bæi sína og dvöldu í útvörinni á meðan vertíð stóð. Viðleguver var svo þriðja tegundin, en frá þeim réru aðkomumenn sem höfðu aðsetur á nálægum sveitabæjum. Fjórða afbrigðið var blandað ver. Þaðan réru aðkomumenn úr öðrum héruðum og dvöldu í verbúðunum yfir vertíðina, auk þess sem heimamenn réru einnig.

Flestar verstöðvanna voru á Vestfjörðum, eða 125 af þeim 326 sem talið er að hafi verið á landinu í upphafi 18. aldar. Voru þar bæði heimver og útver. Verin voru þá yfirleitt staðsett utarlega í fjörðunum þar sem stutt var á miðin. Á Brunnasandi, í Tálknafirði, í Arnarfirði, í Dýrafirði og í Önundarfirði voru staðsett stærstu útverin í fjórðungnum sem og í Bolungarvík, sem var stærsta og elsta verstöðin við Ísafjarðardjúp.

 


Sjóminjasafnið Ósvör | Við Óshlíðaveg | Skrifstofa: Aðalstræti 21 (hjá Náttúrustofu Vestfjarða) |415 Bolungarví­k | Móttökusími: 892-5744 | Skrifstofa: 456 7005 | osvor (hjá) osvor.is